01

Ávarp formanns

Það er ánægjulegt að Covid-19 farsóttin er nú að mestu gengin niður. Áhrif hennar á fyrirtækin og atvinnulífið voru samt umtalsverð á starfsárinu. Áhrifin voru afar misjöfn eftir greinum og enginn vafi á að ferðaþjónustan ásamt öðrum þjónustugreinum varð verst úti og það á einnig við um starfsfólk í þessum greinum. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi gripið til ýmissa aðgerða til mótvægis þá mun það samt taka fyrirtækin töluverðan tíma að komast í svipaða stöðu og fyrir faraldurinn. Þau eru nú viðkvæmari fyrir frekari áföllum en áður.

Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með því fólki sem stóð í stafni við baráttuna gegn veirunni. Útilokað var við þær aðstæður að gera öllum til hæfis. Sérstaklega er átt við starfsfólk Landlæknis og framvarðarsveitir heilsugæslu og sjúkrahúsa. Heiður þeim sem heiður ber.

Við lok faraldursins er æskilegt að gerð verði úttekt á því hvernig til tókst að eiga við svo erfitt verkefni. Hvað var vel gert, hvað síður og hvernig á að bregðast við ef – og þegar – sambærilegir eða svipaðir atburðir verða síðar.

Loftslagsmál

Íslensk stjórnvöld hafa sett metnaðarfull markmið um að ná kolefnishlutleysi árið 2040, að ná 55% samdrætti í losun á beinni ábyrgð stjórnvalda árið 2030 og stefna jafnframt þá að kolefnishlutleysi um þá losun og auka áherslu á loftslagstengd þróunarverkefni með aðgerðum sem tengjast sjálfbærri orkunýtingu með íslenskri þekkingu og tækni. 

Nýverið birtu stjórnvöld svo skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum með hliðsjón af ofangreindum markmiðum. Fram kemur að verulega þurfi að auka orkuframleiðslu og bæta nýtingu orkunnar til að markmiðunum verði náð og jafnframt að efla þurfi flutningskerfi orkunnar til að bæta orkuöryggi og tryggja þannig að unnt verði að skipta sem mest út innfluttri orku úr jarðefnaeldsneyti fyrir sjálfbæra og græna íslenska orku.

Atvinnulífið hefur lagt mikið fram til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við starfsemi fyrirtækja og jafna hana með framlögum til skógræktar, landgræðslu og endurheimt votlendis. Samtök í atvinnulífinu, orkufyrirtæki og fleiri eiga samstarf í gegnum Grænvang þar sem unnið er metnaðarfullt starf sem tengjast markmiðum Íslands. Tækniþróun, framfarir á ýmsum sviðum munu hjálpa til við að markmiðin náist en til þess að fyrirtækin geti beitt sér af fullum þunga verður að tryggja þeim samkeppnishæf rekstrarskilyrði á við það sem best gerist í nálægum löndum en þar stöndum við þeim enn langt að baki. Sérstök ástæða er til að minnast á fiskiskipaflotann þar sem mikil endurnýjun hefur átt sér stað undanfarin ár og með því dregið verulega úr orkunotkun og losun sem henni fylgir. Fiskveiðistjórnunin hefur einnig átt mikinn þátt í þessari þróun sem mun halda áfram en ólíklegt að henni verði lokið á næstu 10 – 15 árum. Ekki er nein lausn í því fólgin að loka ákveðnum fyrirtækjum, slíkt mun engin áhrif hafa á loftslagsmál í alþjóðlegu samhengi, heldur einungis valda búsifjum meðal starfsmanna og fjölskyldna þeirra og viðskiptavina fyrirtækjanna í fjölmörgum tengdum atvinnugreinum.

Kjarasamningar

Í byrjun komandi vetrar rennur út gildistími Lífskjarasamningsins sem gerður var fyrir réttum þremur árum. Enginn sá fyrir efnahagskreppuna sem hófst tæpu ári síðar og átti eftir að hafa mikil áhrif á atvinnulífið allt og getu fjölmargra fyrirtækja til að standa undir umsömdum launahækkunum.

Aðstæður fyrirtækjanna eru nú afar misjafnar og tillit verður að taka til þess þegar viðræður hefjast við verkalýðsfélögin um markmið og leiðir við komandi samningsgerð. Markmið um launaþróun verða að byggja á getu sem flestra fyrirtækja til að standa undir þeim. Síðast var samið um svo kallaðan hagvaxtarauka sem færir fólki launahækkun 1. maí á þessu ári þrátt fyrir að forsendur séu allt aðrar en gert var ráð fyrir þegar samningurinn var gerður. Ég tel samt rétt að halda í þessa hugmynd og þróa hana áfram og þá með hliðsjón af fenginni reynslu. Ekki síst verður að liggja fyrir hvernig brugðist skuli við ófyrirséðum áföllum sem hafa áhrif á rekstur og horfur fyrirtækjanna. Þar hlýtur atvinnuöryggi að skipta miklu.

Að lokum

Ég þakka öllum fyrirtækjum í Samtökum atvinnulífsins og forsvarsmönnum þeirra fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf á starfsárinu. Fátt veitir meiri ánægju en að heimsækja fyrirtækin og kynnast þróttinum sem í þeim býr, metnaði fólksins sem hjá þeim starfar og eindregnum vilja til að sækja fram á öllum sviðum. Búast má við að komandi starfsár og gerð nýrra kjarasamninga reyni mjög á fyrirtækin. Samstaða okkar er því mikilvægari en nokkru sinni.

Eyjólfur Árni Rafnsson
formaður Samtaka atvinnulífsins