Líkt og fyrri ár hafa Samtök atvinnulífsins látið sig málaflokkinn varða með það að leiðarljósi að skapa traustan grundvöll til frekari þróunar og eflingar íslensks atvinnulífs
Menntadagur atvinnulífsins var haldinn að nýju í raunheimum eftir langa tíð stafrænna viðburða vorið 2022. Yfirskrift dagsins að þessu sinni var stafræn hæfni í íslensku menntakerfi og atvinnulífi. Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Á meðal þess sem fjallað var um á deginum var hve hratt stafræn tækni hefur þróast á tímum heimsfaraldurs og hve mikilvægt er að fyrirtæki og starfsmenn þeirra öðlist nýja hæfni sem hentar breyttum tímum.
Menntamálum hefur nú verið skipt á milli þriggja ráðuneyta. Það voru þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem fer með málefni háskóla, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sem fer með málefni leik-, grunn- og framhaldsskóla og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, sem fer með málefni fullorðinsfræðslu sem voru viðstödd menntadaginn og tóku þátt í pallborði þar sem þau ræddu nýja skiptingu málaflokksins.
Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt á Menntadeginum en það voru Samkaup sem hlutu viðurkenningu sem Menntafyrirtæki ársins og Gentle Giants varð Menntasproti ársins. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin.


Ungir frumkvöðlar
Líkt og síðustu ár tók SA þátt í og studdi við alþjóðlega verkefnið Ungir frumkvöðlar. Með verkefninu er ungt fólk í framhaldsskólum hvatt til að leggja fram hugmyndir um nýjungar sem gætu orðið grunnur að fyrirtækjum. Leiðbeinendur á vegum verkefnisins hafa séð til þess að nemendur hljóti aðstoð við að þróa hugmyndir sínar og við gerð viðskiptaáætlunar. Verkefnin eru kynnt á sýningu sem haldin er um vorið og bestu hugmyndirnar eru verðlaunaðar. Auk þess eru þær hugmyndir sem skara fram úr valdar til að taka þátt í samevrópskri keppni. Á þessum vettvangi hefur orðið til fjöldi hugmynda og verkefna sem nokkur hafa orðið að lífvænlegum fyrirtækjum.

Ransóknarsetur um menntun og hugarfar
Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands undirrituðu þann 1. júní sl. samning um stofnun Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar (e. Research Center for Education and Mindset) sem hefur aðsetur við Menntavísindasvið HÍ. Við sama tækifæri var undirritaður samningur um fyrsta verkefnið sem rannsóknarsetrið mun standa að í samvinnu við Vestmannaeyjabæ og Samtök atvinnulífsins.
Rannsóknir á vegum setursins munu beinast að grunnfærni í læsi og lestri, stærðfræði og náttúrufræði. Einnig verður lögð áhersla á rannsóknir á tengslum hreyfingar og vitsmunastarfsemi og á mikilvægi ástríðu, gróskuhugarfars og flæðis í skólaumhverfinu. Sérstök áhersla er á að efla samstarf við atvinnulíf, sveitarfélög og skóla á landsbyggðinni. Rannsóknarsetrið mun miðla kunnáttu og niðurstöðum til samfélagsins og sinna ráðgjöf fyrir sveitarfélög. Einnig gæti setrið komið að þróun á kennsluefni í lestri, stærðfræði og náttúrufræði fyrir yngstu stig grunnskóla eða elstu stig leikskóla.
Læsi er lykill að menntun
Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar í samstarfi við HÍ og breska sendiráðið stóð fyrir ráðstefnu um mikilvægi læsis og lesskilnings fyrir menntun og möguleika fólks til þátttöku í samfélaginu. Margaret Snowling og Kate Nation, prófessorar við Oxford háskóla í Bretlandi, voru gestir ráðstefnunnar en báðar eru þær á meðal fremstu vísindamanna heims á þessu sviði. Á ráðstefnunni var fjallað um rannsóknir á læsi og lesskilningi og hvernig megi efla hvort tveggja.
Stjórnir og ráð
Samtök atvinnulífsins eiga í góðu samstarfi við fjölda aðila um framþróun og mikilvæg verkefni í íslensku menntakerfi. Fulltrúar samtakanna sitja til að mynda víða í stjórnum og nefndum þar sem áhersla er lögð á stöðuga þróun og nýsköpun í menntun með það að leiðarljósi að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja og íslensks atvinnulífs. Grunnurinn í þessari vinnu eru sjónarmið og þarfir atvinnulífsins til lengri og skemmri tíma og þau áherslumál sem SA hefur mótað og sett fram varðandi menntamál.
Á meðal þeirra stjórna sem SA á fulltrúa í eru Tækniþróunarsjóður, vísinda- og tækniráð, Háskólinn í Reykjavík, fulltrúaráð Bifrastar og Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar. SA á einnig fulltrúa í stjórn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Fræðslusjóðs, Vinnustaðanámssjóðs og nokkurra starfsmenntasjóða á borð við SVS, Starfsafl, Landsmennt og menntunarsjóð Stjórnendafélags Íslands.