02

Vinnumarkaðurinn

Starfandi fólki á vinnumarkaði tók að fjölga í maí 2021 m.v. sama mánuð ársins á undan eftir að hafa fækkað samfellt frá maí 2019. Starfandi undanfarna mánuði voru í kringum 190-200 þúsund eða um 15 þúsund fleiri en í sömu mánuðum árið 2021.

Í upphafi ársins 2021 voru fleiri en 26 þúsund skráðir atvinnulausir, þar af voru tæp 22 þúsund að fullu atvinnulausir en um 5 þúsund í hlutastarfi og fengu hlutabætur. Til samanburðar voru færri en 10 þúsund skráðir atvinnulausir ári fyrr. Atvinnuleysi hafði því aukist á milli ára úr 4,8% í 11,6% og 12,8% ef þeir sem fengu hlutabætur eru taldir með.

Hlutabótaúrræðið rann sitt skeið í lok maí 2021 enda hafði vinnumarkaðurinn þá byrjað að taka við sér, skráð atvinnuleysi tók að lækka miðað við sama tímabil árið áður og starfandi fólki að fjölga. Á fyrstu mánuðum 2022 voru hátt í 200 þúsund starfandi á vinnumarkaði eða í kringum 15 þúsund fleiri en fyrir ári síðan. Skráð atvinnuleysi hefur dregist verulega saman og var það 5,2% á fyrstu mánuðum ársins 2022 eða innan við helmingi lægra en á sama tíma í fyrra.

Fjöldi starfandi skv. skrám og skráð atvinnuleysi

Fjöldi (þús.)

326 kjarasamningar

Í nýafstaðinni samningalotu sem hófst haustið 2018 og lauk haustið 2021 undirrituðu SA 136 kjarasamninga sem náðu til rúmlega 110 þúsund starfsmanna. Samningalotur á Íslandi taka þannig allt að þrjú ár þótt skýr stefna sé mörkuð í upphafi með aðkomu stjórnvalda.

Samningalotu ríkis og sveitarfélaga við stéttarfélög lauk í desember 2020 með þeirri undantekningu að Samband íslenskra sveitarfélaga gerði styttri samninga við nokkra viðsemjendur sem nú hafa verið endurnýjaðir að undanskyldum þremur samningum við aðildarfélög KÍ. Ríkið gerði 59 kjarasamninga sem tóku til 23 þúsund starfsmanna og sveitarfélög gerðu 78 kjarasamninga (að viðbættum þeim sem höfðu styttri gildistíma) sem náðu yfir 31 þúsund starfsmenn. Ríki og sveitarfélög gerðu þannig samtals 137 kjarasamninga sem tóku til 54 þúsund starfsmanna. Kjarasamningar hjá hinu opinbera voru þannig fleiri en kjarasamningar SA en náðu til helmingi færri starfsmanna.

Loks gerðu önnur samtök vinnuveitenda, eða einstök fyrirtæki utan vébanda SA, 53 kjarasamninga sem tóku til tæplega 8 þúsund starfsmanna. Þá eru ótaldir kjarasamningar sjómanna sem eru fjórir og taka til 3.500 starfsmanna.

Lokauppgjör samningalotunnar er þá þannig að gerðir hafa verið 326 kjarasamningar. Kjarasamningarnir voru með 171 þúsund félagsmenn stéttarfélaga á atkvæðaskrá. Þeir skiptust þannig að 108 þúsund voru í aðildarfélögum innan ASÍ, 44 þúsund í aðildarfélögum bandalaga opinberra starfsmanna (BSRB, BHM og KÍ) og 19 þúsund utan heildarsamtaka (t.d. stéttarfélög F-stétta, fjármálastarfsmanna, hjúkrunarfræðinga, lækna).

Fjöldi kjarasamninga 2019-2022 eftir atvinnurekendum

172 þús. launamenn, 326* samningar

Fjöldi kjarasamninga 2019-2022 eftir heildarsamtökum launafólks

171 þús. launamenn, 326* samningar

Laun hækka þrefalt meira en í viðskiptalöndunum

Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 24,2% á þriggja ára tímabilinu milli janúarmánaða 2019 og 2022. Á ársgrundvelli er hækkunin 7,5%. Hluti hækkunarinnar er vegna vinnutímastyttingar en Hagstofan mat áhrif vinnutímastyttingar frá mars 2019 til janúar 2022 til 1,8% hækkunar vísitölunnar. 

Launahækkanir á Íslandi hafa verið margfalt meiri en í viðskiptalöndunum undangengin ár og áratugi. Flestum ætti að vera ljóst að þetta er kerfislægt einkenni á íslenskum vinnumarkaði sem setur þrýsting á gengi krónunnar.  Sögulega hafa launahækkanir umfram viðskiptalöndin að lokum leitt til veikingar krónunnar vegna verri samkeppnisstöðu atvinnulífsins og neikvæðs viðskiptajafnaðar vegna of hás kaupmáttar miðað við undirliggjandi stöðu þjóðarbúsins.Á síðasta ári hækkaði tímakaup á Íslandi um 6,4% en um 4,1% í OECD-ríkjunum og 2,7% á hinum Norðurlöndunum að meðaltali, skv. OECD. Svipað er uppi á teningnum öll fyrri ár og áratugi. Frá árinu 2014 hefur tímakaup á Íslandi hækkað um 61,4%, samanborið við 26,8% í OECD-ríkjunum og 16,7% á hinum Norðurlöndunum að meðaltali.

Hækkanir tímakaups á Íslandi samanborið við viðskiptalöndin 2015-2021

Vísitölur tímakaups á Íslandi og í viðskiptalöndunum 2014-2021