10

Erlend samskipti

Stór hluti lagaumhverfis atvinnulífsins kemur frá Evrópusambandinu. Áhersla Samtaka atvinnulífsins í erlendum samskiptum snýst því fyrst og fremst um að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja gagnvart þeirri löggjöf. Það er gert með aðild SA að ráðgjafanefnd EFTA, BusinessEurope og norrænu samstarfi.

BusinessEurope

SA eiga aðild að BusinessEurope sem eru heildarsamtök evrópskra atvinnurekenda. Sú aðild er nýtt til að fylgjast með þróun mála á vettvangi Evrópusambandsins og koma á framfæri sjónarmiðum um málefni sem varða samstarfið um EES. Samtökin gegndu mikilvægu hlutverki í efnahagslegum viðbrögðum við heimsfaraldrinum. Þau tóku t.d. saman efnahagsaðgerðir flestra landa í heiminum og miðluðu þeim til aðildarsamtaka svo hægt væri að skoða hverjar þeirra gætu komið að gagni í hverju landi fyrir sig. Samtökin hafa haldið utan um einstakar aðgerðir aðildarlanda í tengslum við faraldurinn, t.d. bólusetningarvottorð og skyldu til fjarvinnu.

Verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði er jafnframt fastafulltrúi (e. Permanent Delegate) SA gagnvart BusinessEurope. Fastafulltrúafundir eru haldnir tvisvar í mánuði en flestir fundir ársins voru fjarfundir vegna faraldursins. Forsetafundur var haldinn í lok nóvember 2021 í París og næsti forsetafundur verður i Prag í júní 2022. Framkvæmdastjóri SA er í framkvæmdanefnd BusinessEurope (Executive Bureau) 2021-2022 sem fulltrúi EFTA-ríkjanna.

Norrænt samstarf

Samtök atvinnulífsins leggja ríka áherslu á að taka þátt í samstarfi norrænna systursamtaka sinna. Þau eru Dansk arbejdsgiverforening (DA) og Dansk Industri (DI) í Danmörku, Elinkeinoelämän keskusliitto (EK) í Finnlandi, Næringslivets Hovedorganisasjon (NHO) í Noregi og Svenskt Näringsliv (SN) í Svíþjóð. Um stór og öflug samtök er að ræða sem búa yfir mikilli sérfræðiþekkingu á málefnum atvinnulífsins og er mikilvægt að geta fylgst með áherslum þeirra enda oft hægt að líta til nágrannaríkja okkar í leit að fyrirmyndum, til að mynda varðandi undirbúning á regluverki hér á landi.

Samstarfið felst meðal annars í að formenn og framkvæmdastjórar samtakanna hittast að jafnaði tvisvar á ári og jafnframt eru haldnir árlegir fundir lögfræðinga, hagfræðinga, skattasérfræðinga, samskiptastjóra, umhverfissérfræðinga og vinnumarkaðssérfræðinga. Þessir fundir voru með öðru sniði árið 2021 vegna faraldursins. Tilgangur fundanna er meðal annars að fara yfir það sem er efst á baugi og fjalla um sameiginleg hagsmunamál og mismunandi nálganir í hverju landi fyrir sig en einnig eiga þessir hópar í samskiptum milli funda vegna einstakra mála.

Business at OECD

SA eiga aðild að Business at OECD (BIAC) sem eru samtök atvinnurekenda í OECD ríkjunum. Samtökin beita sér fyrir hagsmunum atvinnurekenda gagnvart OECD og aðildarríkjum þess. Samtökin gegndu mikilvægu hlutverki í efnahagslegum viðbrögðum við heimsfaraldrinum, m.a. við að deila greiningum frá hagfræðingum OECD til aðildarsamtakanna.

Ráðgjafarnefnd EFTA 2021

SA eiga aðild að Ráðgjafarnefnd EFTA sem er samstarfsvettvangur aðila vinnumarkaðarins í EFTA-löndunum og fjallar um þróun EES-samningsins með hliðsjón af hagsmunum sem aðilar vinnumarkaðarins gæta. Nefndin fundar að jafnaði fjórum sinnum á ári. Í tengslum við fundi nefndarinnar er árlega haldinn fundur með stjórnarnefnd EFTA (e. Standing Committee), ráðherrum EFTA-ríkjanna, þingmannanefnd EFTA og þeim ráðherra EFTA-EES ríkjanna sem hefur forystu fyrir EFTA hverju sinni. Nefndin vinnur annars vegar að gerð sameiginlegra álitsgerða með hliðstæðri ráðgjafarnefnd Evrópusambandsins og hins vegar að sjálfstæðum álitsgerðum sem kynntar eru fyrir fastanefnd EFTA í Brussel og ráðherrum EFTA-ríkjanna.

Líkt og árið áður voru allir fundir, námskeið og ráðstefnur Ráðgjafarnefndarinnar fjarfundir að einum undanskyldum í nóvember. Ástæðan var COVID 19. Á fundum nefndarinnar var m.a. rætt um viðskipta- og samstarfssamning ESB og Bretlands og hugsanlegar afleiðingar fyrir EFTA. Einnig var fjallað um félags- og efnahagslegar afleiðingar COVID-19. Þá var farið yfir framfylgd fríverslunarsamninga sem EFTA hefur gert á undanförnum árum. Einnig var rætt um gang mála í viðræðum ESB og EFTA við Mercosur ríkin um viðskiptasamninga sem er væntanlega næsti stóri viðskiptasamningur sem EFTA ríkin munu gera. EFTA-ríkin beita og stuðla að virkum kröfum um sjálfbæra þróun og þátttöku án aðgreiningar í viðskiptastefnu sinni, viðskiptasamskiptum og utanríkisstefnu þeirra. Loks var nefndinni gerð grein fyrir yfirstandandi fríverslunarviðræðum EFTA við Malasíu og Moldóvu.FTA-ríkjanna, þingmannanefnd EFTA og þeim ráðherra EFTA-EES ríkjanna sem hefur forystu fyrir EFTA hverju sinni. Nefndin vinnur annars vegar að gerð sameiginlegra álitsgerða með hliðstæðri ráðgjafarnefnd Evrópusambandsins og hins vegar að sjálfstæðum álitsgerðum sem kynntar eru fyrir fastanefnd EFTA í Brussel og ráðherrum EFTA-ríkjanna.