09

Jafnréttismál

Samtök atvinnulífsins trúa að atvinnulífið eigi verkefni fyrir alla og héldu áfram að beina sérstökum sjónum að jafnrétti og fjölbreytileika í íslensku atvinnulífi á árinu. Atvinnulífið nýtur góðs af fólki með mismunandi bakgrunn og af ólíkum kynjum og við viljum efla gagnrýna hugsun og fá að heyra fjölbreytt, uppbyggileg sjónarmið.

Þrátt fyrir að Ísland standi framarlega í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að jafnrétti kynjanna, fjölbreytileika og mannréttindum telur SA mikilvægt að líta ekki á framfarirnar sem sjálfsagðan hlut. Við megum ekki sofna á verðinum en við getum fagnað þessum árangri á sama tíma og við erum einráðin í að gera enn betur.

Atvinnulífið á verkefni fyrir alla

Blásið var til sérstakrar vitundarvakningar og átaks sem snýr að því að veita einstaklingum með skerta starfsgetu tækifæri til starfa. Á landsþingi Landssamtakanna Þroskahjálpar sem haldið var undir yfirskriftinni „Göngum í takt!“ flutti Ásdís Kristjánsdóttir, þá aðstoðarframkvæmdastjóri SA, erindi um atvinnumál fatlaðs fólks. Meðal umræðuefna ráðstefnunnar voru samfélagsleg ábyrgð, brúun bilsins milli náms og atvinnu og reynsla fatlaðs fólks af vinnumarkaði.

SA stóðu fyrir vel heppnuðum fundi með Þroskahjálp, ÖBÍ og félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu um hvernig skal bryggja brýr milli fólks með skerta starfsgetu og atvinnulífsins. Í erindum fundarins kom fram að ljóst væri að samvinna og samstaða væri lykilatriði til að auka tækifæri fatlaðs fólks á vinnumarkaði.

Í samræmi við stjórnarsáttmála stjórnvalda lagði SA ásamt VIRK, Geðhjálp og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins grunn að tilraunaverkefninu „Atvinnulífið á verkefni fyrir alla“. Verkefnið snýr að því að einstaklingar með skerta starfsgetu hafi tækifæri til að bæta afkomu og möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum.

Hvatningarverðlaun jafnréttismála

Árlega koma SA að því að veita Hvatningarverðlaun jafnréttismála sem er ætlað að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn. Um leið er ætlunin að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands standa að verðlaununum.

Dómnefnd Hvatningarverðlauna jafnréttismála veitti Verði hvatningarverðlaun jafnréttismála á sviði kynjajafnréttis árið 2021. Vörður hefur unnið markvisst að jafnrétti innan fyrirtækisins undanfarin ár. Félagið hefur einsett sér að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum í íslensku atvinnulífi og hvatt aðra til hins sama. Félagið hefur hlotið 10 af 10 mögulegum á GemmaQ kynjakvarðanum. Þá hefur félagið lagt sig fram við að fá vottanir og innleiða hugbúnaðarlausnir sem stuðla að auknu jafnrétti. Félagið telur að starfshættir þess stuðli að sanngirni og jafnrétti þar sem áherslan á jafnan rétt kvenna og karla sé sýnileg í allri starfseminni. Þá er það einnig markmiðið að útrýma kynbundinni mismunun, sé hún til staðar, og stuðla að jafnræði og mannréttindum í hvívetna. Loks hefur félagið sett sér metnaðarfull markmið í jafnréttismálum til framtíðar.

Þá veitti dómnefnd Hvatningarverðlauna jafnréttismála Samkaupum hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2021, bæði á sviði fjölmenningar og atvinnumála starfsmanna með skerta starfsorku. Samkaup hafa sett sér stefnu, skýran tilgang og markmið í jafnréttismálum, þar á meðal í málefnum starfsmanna af erlendum uppruna og starfsmanna með skerta starfsgetu. Fyrirtækið hefur lagt af stað í vegferð sem kallast Jafnrétti fyrir alla - Samkaup alla leið og hefur gert samsstarfssamninga við þrjú samtök sem starfa í þágu hópa innan starfsmanna félagsins, en það eru Samtökin '78, Þroskahjálp og Mirra, rannsóknar- og fræðslusetur fyrir erlent starfsfólk.

Fyrirtækið leggur áherslu á forvarnir og fræðslu til starfsmanna á margbreytileika fólks til að útrýma hvers kyns fordómum. Þá hafa verið innleiddir skýrir mælikvarðar á árangur í jafnréttismálum og er þeim fylgt eftir með reglulegum hætti.

Það er alveg ljóst að mikið verk er óunnið þegar kemur að jafnrétti. Samtök atvinnulífsins munu áfram taka þátt í að varða leiðina að frekari árangri á því sviði. Þá eru verkefnin sem bíða ekki aðeins til staðar inni á vinnustöðunum heldur þarf atvinnulífið að leggja sitt að mörkum ásamt hinu opinbera. Raunar þarf allt samfélagið að taka þátt til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar. Í því getur meðal annars falist rýmkaður opnunartími leikskóla, lokun á umönnunarbili ungra barna og skipulag skólakerfisins.

Aðildarfyrirtæki SA hafa aðgang að sérstöku kynningarefni og ráðgjöf frá Vinnumálastofnun sem býður upp á sértæka ráðgjöf og vinnumiðlun fyrir öryrkja og þá sem búa við skerta starfsgetu. Starfsemin er byggð á hugmyndafræði supported employment, sem útleggst á íslensku sem atvinna með stuðningi. Helsta markmiðið er að styðja atvinnuleitendur við að komast á almennan vinnumarkað.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Samtök atvinnulífsins (Global Compact) ásamt Nasdaq Ísland (Kauphöllin), UN Women Íslandi og Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA) stóðu að hátíðlegri athöfn í Hörpu þann 7. mars 2022 þar sem Eliza Reid forsetafrú hringdi bjöllu í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars.

Þema dagsins var „Gender Equality Today for a Sustainable Tomorrow“ sem vísar í framlag kvenna og stúlkna um allan heim í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í átt að sjálfbærari framtíð. 

Eliza Reid var heiðursgestur og hélt stutt erindi um stöðu Íslands og ítrekaði að þó að við séum komin lengra en margar aðrar þjóðir, þá sé margt sem hægt er að bæta er kemur að kynbundnu ofbeldi, hlutfalli kvenna í stjórnendastöðum, launamun kynja, fjárfestingum í frumkvöðlastarfsemi, þriðju vaktinni, stöðu kvenna af erlendum uppruna o.fl.