05

Samskipti og miðlun

Miðlun efnis hjá Samtökum atvinnulífsins tók stakkaskiptum með nýrri ásýnd samtakanna og vefsíðu sem frumsýnd var í lok árs 2021. Heimsfaraldurinn einkenndi áfram fréttaflutning af atvinnulífinu sem og málefnastarf. SA tóku saman greiningu á stöðu heilbrigðismála á Íslandi og gáfu út tillögur þar sem notandi þjónustunnar var m.a. settur í fyrsta sæti. Þá sló SA botninn í undanfarna umrótartíma með 21 lausn á 21 áskorun til handa stjórnvöldum og atvinnulífi. Alls var vísað um 1500 sinnum til SA á síðasta ári í hefðbundnum fjölmiðlum. Útgefið efni, viðburðir og fræðsla fengu aukinn meðbyr með eigin framleiðslu í Stúdíói atvinnulífsins.

Það má segja að árið 2021 hafi verið ár sveiflukenndra haftalosana eftir þunglamalegt tímabil heimsfaraldurs. Málefnastarf einkenndist áfram af faraldrinum en rík áhersla var lögð á lausnir og framþróun stjórnvalda og atvinnulífs.

Samskipti og miðlun skiptu enn frekar um ham á starfsárinu, ekki síst vegna aukinna krafna um rafræna fundi í bland við raunheima. Þá skipaði miðlun upplýsinga fljótt og örugglega á óvenjulegum tímum til félagsmanna stóran sess í starfinu í ár líkt og árið á undan. Nýtt hljóð- og myndver sannaði tilvist sína enn frekar þar sem framleiðsla á efni innan úr Húsi atvinnulífsins varð snar þáttur í að þjónusta félagsmenn enn betur með myndrænni upplýsingagjöf.

Nýtt hljóð- og myndver sannaði tilvist sína á fyrsta starfsárinu þar sem framleiðsla á efni innan úr Húsi atvinnulífsins varð snar þáttur í að þjónusta félagsmenn enn betur með myndrænni upplýsingagjöf.

Endurmörkun SA og ný vefsíða

Í lok árs 2021 leit ný ásýnd og vefsíða SA dagsins ljós og er henni ætlað að styðja betur við stafræna upplýsingagjöf til félagsmanna og mælingar á árangri samtakanna í miðlun efnis. Nýja vefkerfinu fylgir ekki síst aukin sjálfvirkni og samræming við nýtt félaga- og bókhaldskerfi SA og aðildarsamtaka. 

Kennimerki Samtaka atvinnulífsins endurspeglar traust, áreiðanleika og framtíðarsýn. Merkið er auðþekkjanlegt, hvar sem á það er litið. Merkið er byggt á sex sexhyrningum sem mynda hring. Hver sexhyrningur táknar þannig aðildarsamtökin innan Samtaka atvinnulifsins; Samorku, Samtök fyrirtækja í Sjávarútvegi, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. 

Í lok árs 2021 litu ný ásýnd og vefsíða SA dagsins ljós og er þeim ætlað að styðja mun betur við stafræna upplýsingagjöf og mælingar á árangri samtakanna í miðlun efnis.

Hvað gera SA?

Góð vísa er aldrei of oft kveðin en SA minntu félagsmenn og fylgjendur á eðli starfseminnar með kynningarmyndbandi á starfsárinu sem leið.

Reglubundnar kannanir: Púlsinn tekinn á félagsmönnum

SA heldur úti reglubundnum könnunum í samstarfi við Maskínu, Gallup og Seðlabanka Íslands. SA púlsinn bættist við og var innleiddur á starfsárinu þar sem reglulegar örkannanir eru gerðar á stöðu atvinnulífsins í gegnum félagsmenn SA. 

400 stærstu

Heilbrigðisþjónusta á tímamótum

Samtök atvinnulífsins gáfu út tillögur að nýrri nálgun og nýjum áherslum í þeim verkefnum sem framundan eru á sviði heilbrigðisþjónustu. Bar útgáfan yfirskriftina Heilbrigðisþjónusta á tímamótum. Ný nálgun – Nýjar áherslur

Fátt skiptir þjóðina meira máli en góð og örugg heilbrigðisþjónusta þar sem allir hafa jafnan aðgang að sameiginlegu öryggisneti, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu. Íslensk heilbrigðisþjónusta stenst á margan hátt samanburð við það besta sem gerist þó margt megi færa til betri vegar. Í þeirri vinnu verður að horfa til annarra þátta sem munu hafa umtalsverð áhrif á heilbrigðisþjónustu komandi ára s.s. stafræna þróun og öldrun þjóðarinnar. 

Áherslur SA miðuðu að því að ná fram bættum gæðum og aukinni skilvirkni og að það fé sem veitt er til málaflokksins skili sér í bestri mögulegri þjónustu við notendur.

Í framhaldi af útgáfunni héldu SA sérstakan fund með SVÞ um heilbrigðismál sem bar yfirskriftina Heilbrigðiskerfið á krossgötum. Björn Zoega, forstjóri Karolinska sjúkrahússins og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins voru meðal þeirra sem héldu erindi á fundinum.

Hér má lesa tillögurnar.

Ryðjum heimatilbúnum hindrunum úr vegi

Höldum áfram var yfirskrift átaksverkefnis Samtaka atvinnulífsins sem miðaði að því að koma fólki og fyrirtækjum landsins í gegnum kreppuna. Á vefsíðunni holdumafram.is má finna 21 áskorun og lausn, viðtöl við atvinnurekendur úti í feltinu, fróðlega tölfræði upp úr könnunum sem samtökin hafa gert í gegnum heimsfaraldurinn og svokallaða velferðarreiknivél. Þar er sýnt fram á í tölum hvað starfsfólk og fyrirtæki þeirra leggja til samfélagsins í formi skattgreiðslna. Í tengslum við átaksverkefnið sýndu SA einnig þætti á Hringbraut sem fjölluðu um tækifæri eftir landsfjórðungum. Samhliða sýningu þáttanna lögðu forsvarsmenn SA land undir fót og hittu félagsmenn hringinn í kringum landið á súpufundum. Að endingu var Ársfundur atvinnulífsins haldinn rétt fyrir alþingiskosningar undir formerkjum Höldum áfram 21/21 og botninn sleginn í átaksverkefnið. 

21 áskorun og lausn 

Forsenda almennrar velmegunar er blómlegt atvinnulíf. Skapa þarf umhverfi til þess að fyrirtækin geti vaxið og skapað aukin verðmæti. Samtök atvinnulífsins tóku saman 21 áskorun og lausn í sex efnisflokkum sem horfa til þessara þátta. Tillögurnar snúa að opinberum rekstri, skattastefnu, rekstrarumhverfi atvinnulífsins, sjálfbærri þróun, vinnumarkaðnum, menntamálum og heilbrigðismálum.

Vítahringur skuldsetningar og vaxtakostnaðar dregur úr getu okkar til að bregðast við vandamálum samtímans eins og...

Posted by Samtök atvinnulífsins on Fimmtudagur, 24. júní 2021

Samtök atvinnulífsins tóku saman 21 áskorun og lausn í sex efnisflokkum; opinber rekstur, skattastefna, rekstrarumhverfi atvinnulífsins, sjálfbær þróun, vinnumarkaður, menntamál og heilbrigðismál.

Sögur úr atvinnulífinu 

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju, segir að samhliða breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar ríði á að gera nauðsynlegar breytingar í heilbrigðisþjónustu. Í því muni nýsköpun og einkaframtakið gegna lykilhlutverki.

Á síðunni má finna viðtöl við veitingamenn, starfsfólk í ferðaþjónustu, iðnaði, sjávarútvegi, orkuiðnaði, nýsköpun og verslun sem öll greina frá sínum hugmyndum um hvernig megi komast upp úr skaflinum, í sameiningu. 

Lesa fleiri sögur úr atvinnulífinu

Reiknivél velferðar

Reiknivél velferðar sýnir hve mikla velferð starfsfólk og fyrirtæki þitt býr til í sameiningu með tilliti til fæðinga, leikskólaplássa og hjúkrunarrýma. Meðfylgjandi er niðurstaða Jómfrúarinnar sem var eitt af mörgum fyrirtækjum sem birti niðurstöðurnar opinberlega.

Hringferð um landið

Samhliða sýningu þáttanna lögðu forsvarsmenn SA land undir fót og hittu félagsmenn hringinn í kringum landið á súpufundum.

Höldum áfram þættir á Hringbraut 

SA sýndu umræðuþætti á Hringbraut sem fjölluðu um tækifæri eftir landsfjórðungum

Ársfundur atvinnulífsins 

Höldum áfram verkefninu lauk með glæsilegum ársfundi atvinnulífsins haustið 2021.

Alþingiskosningar 2021: SA ræddu við kjörna fulltrúa 

Samtök atvinnulífsins buðu fulltrúum allra flokka sem áttu sæti á Alþingi til fundar vikurnar fyrir alþingiskosningar haustið 2021. Fulltrúar flokkanna og SA ræddu ýmis mál á fundunum, þar sem farið var yfir áherslur flokkanna og þau stefnumál sem SA vildu koma á framfæri við kjörna fulltrúa í aðdraganda kosninga. Fulltrúar flokkanna fengu þar að auki málefnarit afhent með 21 áskorun og lausn.  

Samtöl atvinnulífsins

Hlaðvarp atvinnulífsins, undir yfirskriftinni Samtöl atvinnulífsins, leit dagsins ljós á starfsárinu. Samtöl atvinnulífsins fara vítt og breitt um ólíka kima atvinnureksturs á Íslandi. Fyrstu hlaðvarpsþættirnir lutu að umhverfismálum og orkuskiptum í tilefni af Umhverfismánuði atvinnulífsins október 2021. 

Samtöl atvinnulífsins á helstu hlaðvarpsveitum. 
Hér má sjá hlaðvarpið á vefsíðu SA.

Umhverfismánuður atvinnulífsins 

Í tengslum við hinn árvissa Umhverfisdag atvinnulífsins var allur októbermánuður 2021 eyrnamerktur umhverfismálum og málefnum orkuskipta í 20 mínútna umræðuþáttum þvert á atvinnugreinar. 

Umræðuþættir og hlaðvarp

Þættirnir voru sýndir alla þriðjudaga og fimmtudaga í október frá 10:00 - 10:30 í Sjónvarpi atvinnulífsins á netinu, Facebook live og Samtölum atvinnulífsins á helstu hlaðvarpsveitum. Hér má sjá einn af umræðuþáttunum þar sem Arnar Ingi Jónsson, sérfræðingur hjá SFF ræðir við sérfræðinga í sjálfbærni um græn fjármál, þau Aðalheiði Snæbjarnadóttur og Reyni Smára Atlason hjá Landsbankanum. 

Í þættinum er fjallað um sjálfbær fjármál frá ýmsum hliðum. Hver eru raunveruleg umhverfisáhrif fjármálafyrirtækja og hver er þróunin í ábyrgum fjárfestingum? 

Umhverfisdagur atvinnulífsins

Umhverfisdagur atvinnulífsins Umhverfisdagurinn var haldinn í sjötta sinn en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Dagskráin fór fram í raunheimum auk streymis í opinni dagksrá á vef SA, samfélagsmiðlum og fjölmiðlum þar sem áhorf mældist yfir 8000. 

Bláa lónið og Aha.is hlutu umhverfisverðlaun atvinnulífsins

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru veitt í tveimur flokkum, annars vegar fyrir framtak ársins og hins vegar var valið umhverfisfyrirtæki ársins. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin. 

Bláa lónið er umhverfisfyrirtæki ársins 2021
Aha.is eiga umhverfisframtak ársins 2021

Nánar um verðlaunahafana má lesa hér.

Hefjum rekstur 

Samtök atvinnulífsins buðu upp á opið námskeið um stofnun fyrirtækja sem gögnuðust öllum sem hafa hug á að hefja rekstur. Á námskeiðinu fóru nokkrir af helstu sérfræðingum landsins yfir tíu lykilþætti er varða rekstur og stofnun fyrirtækja. Fyrirspurnum var einnig svarað í beinni. Mældist námskeiðið afar vel fyrir og ekki loku fyrir það skotið að SA endurtaki leikinn.

Hollráð um heilbrigða samkeppni – 2. útgáfa 

Uppfærð útgáfa af Hollráðum um heilbrigða samkeppni litu dagsins ljós í kjölfarið á breytingum sem gerðar voru á samkeppnislögum sumarið 2020. Lutu breytingarnar einkum að viðmiðunarmörkum um tilkynningarskyldu samruna, tímafresti vegna rannsóknar samrunamála og nýju fyrirkomulagi um mat fyrirtækja á því hvort samstarf milli þeirra samrýmist ákvæðum samkeppnislaga. Í 2. útgáfu hefur tillit verið tekið til framangreindra breytinga og þau aðlöguð að þeim.

Hollráð um heilbrigða samkeppni voru fyrst gefnar út vorið 2018 með það að markmiði að auðvelda starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækja að glöggva sig á þeim reglum sem gilda um fyrirtæki og varða samkeppni. Markmið samkeppnislaga er að tryggja virka samkeppni í viðskiptum og efla þannig nýsköpun, frumkvæði, framleiðslu og þjónustu á sem lægstu verði. Útgefendur leiðbeininga í samkeppnisrétti eru Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Lögmannafélag Íslands. 

Útgáfa 2: Hollráð um heilbrigða samkeppni – Leiðbeiningar til fyrirtækja. 

Íslenskt – láttu það ganga

Sameiginlegt kynningarátak stjórnvalda og atvinnulífs undir yfirskriftinni Íslenskt – láttu það ganga hélt áfram með birtingu auglýsinga í útvarpi og vef-og samfélagsmiðlum. Þá bættust við sögur af nokkrum íslenskum vörum sem sagðar voru með skemmtilegum hætti eins og sjá má hér:

Átakið hófst sem liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda gegn COVID-19 en með átakinu var unnið gegn efnahagslegum samdrætti vegna heimsfaraldursins með það fyrir augum að lágmarka áhrifin á atvinnulíf, til skemmri og lengri tíma.

Kynningarátakinu var ætlað að verja störf og auka verðmætasköpun og miðar að því að hvetja landsmenn, almenning og fyrirtæki til viðskipta við innlend fyrirtæki á fjölbreyttum sviðum, við val á framleiðslu, vörum og þjónustu. 

Lögð er áhersla á mikilvægi þeirrar keðjuverkunar og hringrásar sem verður til við val á innlendri framleiðslu- og þjónustustarfsemi sem stuðlar að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er aukin. 

Að átakinu standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samorka og Bændasamtök Íslands.

Kynningarátakinu var ætlað að verja störf og auka verðmætasköpun og miðar að því að hvetja landsmenn, almenning og fyrirtæki til viðskipta við innlend fyrirtæki á fjölbreyttum sviðum.

Fyrirtækin okkar

SA hófu nýtt verkefni á árinu sem kallast Fyrirtækin okkar. Tilgangur verkefnisins er að minna á fjölbreytni íslensks atvinnulífs, sýna hin ólíku viðfangsefni sem fólk í rekstri fæst við og segja sögur af öflugu fólki í samfélaginu.

Íslensk fyrirtæki eru allskonar. Sögurnar endurspegla mismunandi rekstur og mismunandi einstaklinga sem standa að baki fyrirtækjunum. Þær sýna okkur inn í heim fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum, í mismunandi geirum og á mismunandi stöðum á landinu. 

Raunveruleikinn er sá að fyrirtæki á Íslandi skipta þúsundum og fjölbreytni í starfsemi og stærð er gríðarlegur. Árið 2020 starfaði um helmingur launþega í atvinnulífinu hjá fyrirtækjum með færri en 50 starfsmenn og rúm 70% launþega starfaði hjá fyrirtækjum með færri en 250 starfsmenn. Flest störfum við á minni vinnustöðum þar sem öll þekkja hvert annað og eigendur og stjórnendur fyrirtækisins eru oftast í kallfæri.

Með góðri blöndu stórra og minni fyrirtækja, sérhæfingar, nýsköpunar, dugnaðar og hugvits skapast endalaus tækifæri fyrir fólk til að nýta menntun sína og þekkingu í verki, finna sköpunarkrafti útrás og viðhalda gömlum hefðum og þekkingu.

Á www.fyrirtaekinokkar.is má finna allar sögur fyrirtækjanna okkar þar sem nýjar sögur bætast reglulega við.

„Við speglum okkur oftar í öðru fólki, og ef við höfum ekki fyrirmyndir til að spegla okkur í þá getum við ekki séð...

Posted by Samtök atvinnulífsins on Föstudagur, 13. maí 2022

Augnablik

Augnablik eru örmyndbönd sem orðin eru fastur liður í málefnastarfi Samtaka atvinnulífsins og eru sérstaklega hugsuð til deilingar á samfélagsmiðlum. Þar eru helstu málefni sem SA vinnur að hverju sinni soðin niður í stutt skýringarmyndband samhliða hefðbundnari leiðum til birtingar.  

Skattadagurinn

Hinn árlegi Skattadagur Deloitte, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands var haldinn í janúar 2022. Opnunarávarpið hélt Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og fundarstjóri var Heiðrún Björk Gísladóttir, verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði SA. Agla Eir Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands flutti erindi um skilvirkt skattkerfi. Vigdís Tinna Sigurvaldadóttir, alþjóðlegur skattalögfræðingur Marel fjallaði um íslensk fyrirtæki í alþjóðlegu samhengi. Guðbjörg Þorsteinsdóttir, meðeigandi og lögmaður hjá Deloitte Legal fór yfir skattalagabreytingar og þá agnúa sem má sníða af skattkerfinu. Þá settu örinnslög frá athafnafólki úr íslensku atvinnulífi svip sinn á annars fjölbreytta dagskrá.

Menntadagur atvinnulífsins 2022 

Menntadagur atvinnulífsins var haldinn í níunda sinn þann 25. apríl 2022 og var dagurinn helgaður stafrænni hæfni. Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá fór fram í Hörpu með málstofum og menntatorgi. Menntasproti og menntaverðlaun ársins voru að venju veitt fyrirtækjum sem skarað hafa fram úr í mennta- og fræðslumálum. Samkaup er menntafyrirtæki ársins 2022 og Gentle Giants á Húsavík er menntasproti ársins.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, mannauðsstjóri Samkaupa og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, Jóhanna Sigríður Svavarsdóttir, mannauðsstjóri, Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri og Daniel Annisius, aðstoðarframkvæmdastjóri Gentle Giants.

Nánar um menntafyrirtæki og menntasprota ársins má lesa hér.

Atvinnumál fólks með skerta starfsgetu

Samtök atvinnulífsins, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands í samstarfi við Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið buðu til fundar um atvinnumál fólks með skerta starfsgetu. Fundarstýrur voru þær Sara Dögg Svanhildardóttir, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Fundurinn hófst með ávarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra. Þá fengu fundargestir kynningar frá Önnu Lóu Ólafsdóttur og Svandísi Nínu Jónsdóttur frá VIRK starfsendurhæfingu, Valgerði Unnarsdóttur frá ÁS Styrktarfélagi og Laufeyju Gunnlaugsdóttur, deildarstjóra hjá Vinnumálastofnun. Framkvæmdastjóri Alfreð.is, Halldór Friðrik Þorsteinsson, fór yfir nýtt verkefni fyrirtækisins „Allir með“ sem snýr að betri sýnileika atvinnuauglýsinga sem henta einstaklingum með skerta starfsgetu. Framkvæmdastjóri SA, Halldór Benjamín Þorbergsson, lokaði svo fundinum með erindi sínu „Atvinnulífið á verkefni fyrir alla.“ 

Samtök atvinnulífsins fagna fundinum en markmið hans var að gera sýnilegri þær lausnir sem til staðar eru og þau tækifæri sem felast í aukinni þátttöku fólks með skerta starfsgetu í atvinnulífinu. 

Vörður og Samkaup hlutu Hvatningarverðlaun jafnréttismála

Hvatningarverðlaun jafnréttismála voru afhent á rafrænum morgunfundi um jafnréttismál í Hátíðasal Háskóla Íslands. Að verðlaununum standa Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands.

Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2021: Hvatningarverðlauna jafnréttismála 2021 verða afhent í Hátíðasal Háskóla Íslands...

Posted by Háskóli Íslands on Þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Dómnefnd Hvatningarverðlauna jafnréttismála veitti Verði hvatningarverðlaun jafnréttismála á sviði kynjajafnréttis árið 2021 og Samkaupum hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2021, bæði á sviði fjölmenningar og atvinnumála starfsmanna með skerta starfsorku. 

Líkt og undanfarin ár voru veitt verðlaun á sviði kynjajafnréttis, en í ár voru einnig veitt sérstök verðlaun með áherslu á annars vegar fjölmenningu og hins vegar starfsfólk með skerta starfsgetu.

Almannarómur á fund Apple í Kaliforníu

Sendinefnd Almannaróms skipuð forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni og menningar- og viðskiptaráðherra Lilju Alfreðsdóttur, héldu á fund forsvarsmanna Apple á vormánuðum 2022. Fundað var með Jason Lundgaard aðalframkvæmdastjóra og Nick Ammann varaforseta alþjóðamálasviðs fyrirtækisins. Einnig var fundað með Open AI, Amazon og Microsoft.

Forseti ræddi mikilvægi þess að íslenska verði hluti af þróun tæknilausna svo framtíð tungumálsins sé tryggð í stafrænum heimi. Á fundinum kynnti einnig Lilja Alfreðsdóttir þau umfangsmiklu gagnasöfn sem þegar eru til staðar í samræmi við máltækniáætlun stjórnvalda. Þá greindi Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms, frá þeirri miklu vinnu sem lögð hefur verið í þróun máltæknilausna á Íslandi. Lögð var áhersla á sameiginlega hagsmuni í langtímasamstarfi.

Vilja koma íslenskunni að 

Tilgangur ferðar nefndarinnar var að sýna forsvarsmönnum tæknirisanna fram á mikilvægi þess að íslensk tunga eigi sinn sess í þróun á nýjustu máltæknilausnum. Auk ofangreindra er sendinefndin skipuð Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Jóni Guðnasyni, forstöðumanni Gervigreindarseturs Háskólans í Reykjavík, Vilhjálmi Þorsteinssyni, stofnanda hugbúnaðarfyrirtækisins Miðeindar, ásamt formanni stjórnar Almannaróms Stefaníu G. Halldórsdóttur og Björgvini Inga Ólafssyni sem er meðlimur stjórnar Almannaróms. 

Almannarómur er miðstöð máltækni, samkvæmt fimm ára samningi við fjármálaráðuneytið og þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti frá árinu 2018. Almannarómur ber ábyrgð á framkvæmd máltækniáætlunar stjórnvalda. Miðstöðin er óháð sjálfseignastofnun. 

Atvinnulífsráðstefna Almannaróms og Samtaka atvinnulífsins var haldin í aðdraganda ferðarinnar til Kaliforníu í Silfurbergi í Hörpu við glimrandi móttökur gesta.
Á ráðstefnunni fluttu ávörp innlendir og erlendir sérfræðingar í máltækni auk fulltrúa atvinnulífsins. Fjörugar pallborðsumræður tóku einnig stóran hluta dagskrárinnar.