03

Efnahagsmál

Atvinnulífið vaknar úr dvala

Verulega dró úr óvissu tengdri heimsfaraldrinum á árinu 2021 með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á allt efnahagslíf. Eftir 7,1% samdrátt í landsframleiðslu á árinu 2020 nam hagvöxtur á árinu 2021 4,3%. Fólksflutningar til landsins voru verulegir á sama tíma og jókst landsframleiðsla á mann því um 2,5%. Þrátt fyrir hagvöxtinn mældist landframleiðsla ársins 2021 þó enn 3% minni að raungildi en hún var á árinu 2019.

Þróun landsframleiðslu og landsframleiðslu á mann

Magnbreyting frá fyrra ári (%)

Kröftug einkaneysla og fjárfesting knúðu hagvöxtinn áfram á meðan framlag utanríkisviðskipta var enn neikvætt. Útflutningur tók þó verulega við sér frá fyrra ári og er áætlað að hann hafi aukist um 12%. Innflutningur jókst hins vegar enn meira, eða um 20% sem skýrir áframhaldandi neikvætt framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar. 

Ferðaþjónustutengd starfsemi fékk byr í seglin á ný en tilkoma Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar á seinasta fjórðungi ársins setti strik í reikninginn og leiddi til þess að færri ferðamenn sóttu landið heim en áætlað hafði verið. Fjöldi erlendra ferðamanna á árinu 2021 nam tæplega 690 þúsundum sem er einungis 30% þess fjölda sem ferðaðist til landsins árið 2018 þegar mest var. 

Brottfarir erlendra ríkisborgara frá Keflavíkurflugvelli og hótelgistinætur erlendra aðila

Fjöldi (þús.)

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu nam því um 5% samanborið við 4% á árinu 2020 en 8% árin fjögur þar á undan. Frá árinu 2018 hafa útflutningstekjur hugverkaiðnaðar hins vegar aukist um 50% og mynda nú um 10% útflutningstekna Íslands. Mætti því tala um að ný stoð útflutnings hafi verið að myndast á undanförnum árum sem mikilvægt er að hlúa að til að undirbyggja frekari fjölbreytni í íslensku efnahagslífi.

Hlutdeild einstakra liða í hagvexti

Magnbreyting frá fyrra ári (%)

Talið er að einkaneysla hafi aukist um tæp 8% að raungildi eftir 3% samdrátt árið á undan og var hún því orðin sterkari en áður en faraldurinn skall á. Fjárfesting jókst um 14% þar sem fjárfesting atvinnuveganna jókst um 23% en fjárfesting hins opinbera um 12%. Þrátt fyrir fjárfestingarátak yfirvalda og mikla aukningu í atvinnuvegafjárfestingu er fjárfestingastig þó enn ekki hátt í sögulegu samhengi. Til að styðja við aukna fjárfestingu þarf að skapa aukið svigrúm í rekstri hins opinbera og fyrirtækja og tryggja skilvirkt og hagfellt fjárfestingarumhverfi með skynsamlegu regluverki og hóflegum fjármögnunarkostnaði. Mikilvægt er að styrkja áfram innviði og hvetja til aukinnar almennrar fjárfestingar til að styðja við framtíðarhagvaxtargetu þjóðarbúsins.

Fjármunamyndun

% af VLF

Undraverður bati á vinnumarkaði

Samhliða auknum þrótti í hagkerfinu vænkaðist staðan á vinnumarkaði. Í upphafi árs 2021 stóð skráð atvinnuleysi í 12,8% - þar af náði almennt atvinnuleysi hámarki í 11,6% en 1,2% var vegna minnkaðs starfshlutfalls.

Í upphafi árs 2021 hafði atvinnulausum fjölgað í öllum atvinnugreinum en mest var fjölgunin í ferðaþjónustutengdri starfsemi eins og áður. Talsverð fjölgun hafði einnig verið á langtímaatvinnulausum og voru erlendir ríkisborgarar um 40% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá. 

Þróun atvinnuleysis

Skráð atvinnuleysi skv. Vinnumálastofnun

Í lok árs var staðan á vinnumarkaði hins vegar gjörbreytt en þá mældist skráð atvinnuleysi 4,9%, sem er áþekkt því hlutfalli sem mældist fyrir faraldurinn og hafði atvinnulausum fækkað um 16 þúsund manns á árinu. Langtímaatvinnulausum hafði einnig fækkað nokkuð en hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá var enn hátt, eða 42%. Þrátt fyrir þessa stórbættu stöðu mælist atvinnuleysi þó enn meira en það sem Íslendingar hafa áður vanist, sem er áhyggjuefni. 

Samhliða þessari þróun fjölgaði einnig þeim atvinnurekendum sem töldu skort á starfsfólki en skv. könnuninni 400 stærstu í árslok 2021, sem SA framkvæmir í samstarfi við Gallup og Seðlabanka Íslands, töldu 39% atvinnurekenda skort á starfsfólki í sínu fyrirtæki m.v. 11% í árslok 2020. Þá voru fremur uppi áform um að fjölga starfsfólki hjá fyrirtækjum en að fækka m.v. niðurstöður könnunarinnar í ársbyrjun 2022, en þess ber að geta að á svartímabilinu braust út stríð í Úkraínu.

Launaþróun úr takti við aðrar efnahagsstærðir

Þrátt fyrir að miklar áskoranir hafi enn verið til staðar í atvinnulífinu vegna afleiðinga faraldursins mældust verulegar launahækkanir, ekki síst á opinbera markaðinum. Athygli vakti að launaþróun var því nokkuð úr takti við stöðuna í efnahagslífinu og á vinnumarkaði. Þannig hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 6,8% að meðaltali á meðan laun opinberra starfsmanna hækkuðu um 12,3% - þar af 10,8% hjá ríkisstarfsmönnum og 14,1% hjá starfsmönnum sveitarfélaga. 

Mánaðarleg launavísitala

Breyting frá fyrra ári (%)

Þróun launavísitölu

Mars 2019 til desember 2021

Þá var stytting vinnuvikunnar nokkuð í deiglunni þar sem styttingin tók gildi hjá stórum hluta opinberra starfsmanna á árinu. Áhrifum styttingarinnar voru gerð góð skil í haustskýrslu Kjaratölfræðinefndar en þar kemur fram að áhrif vinnutímabreytinga á hækkun grunntímakaups hafi verið töluvert meiri hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga en á almenna vinnumarkaðinum.

Verðbólga meiri og þrálátari en vænst var

Í árslok 2020 spáði Seðlabanki Íslands að meðalverðbólga ársins 2021 yrði 2,9%. Meðalverðbólgan mældist hins vegar 4,4% en verðbólga án húsnæðis nam 3,8%. Tólf mánaða verðbólga stóð þó í 5,1% í árslok og var á uppleið. Megindrifkraftur verðbólgu á árinu var húsnæðisverð enda hækkaði íbúðaverð um 15,9% á landsvísu á árinu. Liðirnir þjónusta og eldsneyti kyntu einnig undir verðbólgunni en áhrif gengislækkunar krónunnar fjöruðu hins vegar út á árinu og dró þannig úr áhrifum innfluttrar verðbólgu.

Undirliðir verðbólgu

Framlag til ársverðbólgu (%)

Sökum versnandi verðbólguhorfa og bættra horfa í þjóðarbúskapnum hóf Seðlabankinn vaxtahækkunarferli í maí 2021 frá sögulegu lágmarki stýrivaxta. Voru vextir þá hækkaðir um 0,25 prósentur. Vextir voru svo hækkaðir þrisvar til viðbótar á árinu, en alls námu vaxtahækkanir 1,25 prósentu og hækkuðu því úr 0,75% í 2%. Í lok árs voru raunvextir Seðlabankans engu að síður neikvæðir um 3% og voru væntingar um áframhaldandi vaxtahækkanir peningastefnunefndar.

Gengi krónunnar lækkaði um 2,5% á árinu 2021 skv. gengisvísitölu eftir að hafa lækkað um 10% árið á undan. Veikingin var m.a. sökum útflæðis vegna nýfjárfestingar og halla á vöruviðskiptum við útlönd en viðsnúningur í ferðaþjónustutengdri starfsemi vó á móti. Raungengi krónu m.v. verðlag var í árslok á svipuðum slóðum og áður en faraldurinn skall á. Eftir að hafa verið virkur þátttakandi á gjaldeyrismarkaði frá upphafi faraldurs dró Seðlabankinn úr þátttöku sinni á árinu eftir því sem meiri dýpt myndaðist á markaðinum og betra jafnvægi náðist. 

Raungengi krónu m.v. verðlag

Hrein erlend staða þjóðarbúsins stóð í lok árs í 40% af landsframleiðslu og hafði þá batnað um 7 prósentur milli ára, ekki síst vegna mikilla verðhækkana á erlendum verðbréfamörkuðum. Þá stóð gjaldeyrisforðinn í rúmlega 900 milljörðum í árslok 2021 þrátt fyrir inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði og telst því enn vel rúmur samkvæmt viðmiðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. 

Gjaldeyrisforði

m.kr.

Staða heimila vænkast en fasteignaverð hækkar skarpt

Launahækkanir mældust talsvert umfram verðbólgu og hélt kaupmáttur launa því áfram að aukast, eða um 3,7% að meðaltali á árinu 2021. Á sama tíma batnaði atvinnuástand verulega. Samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar fyrir árin 2019-2021 töldu íslensk heimili gæði eigin lífskjara í eða við sögulegt hámark. Þá hefur hlutfall heimila sem segist eiga erfitt með að ná endum saman aldrei verið lægra og aldrei færri heimili sagst eiga í erfiðleikum með að mæta óvæntum útgjöldum. Ekki var merkjanleg aukning í hlutfalli lána heimila í vanskilum frá því fyrir faraldur og hefur sparnaður þeirra haldið áfram að byggjast upp. Fjárhagsleg staða heimilanna hefur því haldið áfram að vænkast á ýmsa mælikvarða. 

Á sama tíma hélst vaxtastig lágt sem jók enn þrýsting á húsnæðisverð þar sem fleiri heimili sáu sér fært að kaupa eigin húsnæði en áður. Þrátt fyrir aukna innkomu heimila á húsnæðismarkað jukust skuldir heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum aðeins lítillega enda hækkuðu laun verulega á sama tíma og vaxtabyrði minnkaði. Skuldir heimila eru því enn mjög hóflegar í samanburði við nágrannaþjóðir og mun lægri en þær voru í kjölfar fjármálaáfallsins. Þrátt fyrir hækkandi húsnæðisverð hafa jafnframt aldrei færri talið sig búa við þunga byrði af húsnæðiskostnaði. 

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu

Árshækkun (%)

Miklir fólksflutningar til landsins juku eftirspurnarþrýsting á húsnæðismarkaði og mátu Húsnæðis- og mannvirkjastofnu (HMS) og Samtök iðnaðarins (SI) það sem svo að þær íbúðir sem væru í byggingu myndu ekki nægja til að vinna á þeim framboðsskorti sem myndast hefði. Töldu byggingaraðilar lóðaskort, þungt regluverk og þéttingarstefnu helstu hindranir í vegi aukinnar uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði. Meðal annars sökum ört hækkandi húsnæðisverðs, sem kynti undir verðbólgu, hóf Seðlabankinn vaxtahækkunarferli. Vaxtabyrði heimila jókst því að líkindum á ný á árinu, en frá lægsta stigi sem verið hefur sögulega. Brýnt er að ráðast í umbætur á umgjörð húsnæðismarkaðar til að bregðast megi hraðar við aukinni eftirspurn og draga þannig úr sveiflum í húsnæðisverði.

Fjármál hins opinbera löskuð eftir faraldurinn

Þrátt fyrir eitt stærsta efnahagsáfall lýðveldissögunnar hélt staða heimilanna áfram að batna en sömu sögu er ekki að segja af fjármálum hins opinbera - enda miðuðu aðgerðir yfirvalda að því að viðhalda fjárhagslegum styrk heimila og fyrirtækja í gegnum faraldurinn með miklum hallarekstri og aukinni lántöku ríkissjóðs. Á árinu 2021 var tekjuafkoma hins opinbera neikvæð um 288 milljarða eða um tæplega 9% af landsframleiðslu, sem er áþekk niðurstaða og fyrir árið á undan. 

Tekjuafkoma hins opinbera

% VLF

Aðgerðir yfirvalda sem sneru að vinnumarkaði og hækkandi húsnæðisverð gerðu það hins vegar að verkum að tekjur sveitarfélaga, sem samanstanda aðallega af útsvari og fasteignagjöldum, héldu áfram að vaxa í faraldrinum. Útgjöld uxu hins vegar enn meira sem leiddi til lakari afkomu þeirra. Er nú áætlað að uppsafnaður halli hins opinbera á árunum 2020-2022 muni nema 700 milljörðum króna, sem er þó um 200 milljörðum minna en áætlanir höfðu áður gert ráð fyrir. Er þar einkum að þakka meiri hagvexti en vænst var, ekki síst vegna kröftugrar einkaneyslu sem viðbrögð yfirvalda hafa stutt við.

Hallinn hefur að mestu verið fjármagnaður með lántöku og héldu skuldir ríkissjóðs áfram að vaxa á árinu 2021. Aukin skuldasöfnun hefur enn ekki haft neikvæð áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs en lánshæfismatsfyrirtæki tilgreina að mikilvægt sé að yfirvöld sýni skuldbindingu sína gagnvart ábyrgum ríkisfjármálum í verki á komandi árum til að forðast skerðingu á lánshæfismati. 

Ekki er fyrirhugað að stöðva skuldasöfnun sem hlutfall af landsframleiðslu fyrr en á árinu 2026 og er þá ráðgert að fjármálareglur samkvæmt lögum um opinber fjármál taki gildi að nýju. Það má því segja að það verkefni að vinda ofan af neikvæðum áhrifum faraldursins á ríkisfjármálin bíði næstu ríkisstjórnar.

Heildarskuldir ríkissjóðs skv. skuldareglu

% VLF

Væntingar heimila og fyrirtækja glæðast

‍Í árslok 2021 mátti merkja stóraukna bjartsýni hjá heimilum og fyrirtækjum frá fyrra ári og væntingar til þróunar efnahagslífsins voru almennt jákvæðar. Stærstan hluta ársins mældist væntingavísitala Gallup yfir 100 stigum sem þýðir að fleiri svarendur voru jákvæðir en neikvæðir gagnvart mati og væntingum á efnahagslegri stöðu. Aðeins tók eitt ár að ná vísitölunni frá lágmarki til fyrri hæða en það tók væntingar um átta ár að ná fyrra hámarki í kjölfar fjármálaáfallsins. Þá tók vísitala efnahagslífsins skv. 400 stærstu fyrirtækjum landsins einnig verulegan kipp á árinu og nálgaðist fyrra hámark eftir að hafa sokkið til botns á árinu 2020.

Nú þegar rofar til í efnahagslífinu má glögglega sjá að íslensk heimili og fyrirtæki hafa staðið heimsfaraldurinn mun betur af sér en óttast var. Enn er þó verk að vinna í ríkisfjármálunum - aðgerða verður þörf svo stöðva megi skuldasöfnun og jafnvægi náist í ríkisrekstrinum á ný. Ójafnvægi var þegar tekið að myndast í rekstri hins opinbera áður en faraldurinn skall á. Á þeim vanda þarf enn að taka óháð öðru.

Þá hefur verðbólga hefur reynst bæði meiri og þrálátari en væntingar stóðu til. Í því samhengi skiptir máli að Seðlabankinn, yfirvöld og aðilar vinnumarkaðar standi sameiginlega að því að tryggja stöðugt verðlag sem greiðir fyrir lægra vaxtastigi en ella. Slík stefna er til þess fallin eð leiða til áframhaldandi kaupáttaraukningar íslenskra heimila sem byggir á traustum efnahagslegum grunni.