06

Sjálfbærni

Sjálfbær þróun felst í „að mæta þörfum nútímans án þess að aftra kynslóðum framtíðar að mæta sínum eigin þörfum.
– Brundtland skýrslan, 1987

Undirstaða hagvaxtar framtíðarinnar

Þrjár meginstoðir sjálfbærrar þróunar eru: vernd umhverfisins, félagsleg velferð og efnahagsvöxtur, en mikilvægt er skoða þessar þrjár stoðir heildrænt þegar leitast er við að hámarka efnahagslega og félagslega velferð án þess að skaða umhverfið. 

Aðkoma atvinnulífsins skiptir sköpum þar sem horfa þarf til nýsköpunar og fjárfestingatækifæra en hugtakið sjálfbærni tengir saman grunnstarfsemi fyrirtækja og þá hugsun að búa til virði til langs tíma. 

Samtök atvinnulífsins beita sér fyrir einföldun á regluverki, innleiðingu á hagrænum hvötum, takmörkunum á íþyngjandi kvöðum og að stjórnvöld skapi umhverfi sem leyfir nýsköpun, þá sérstaklega í umhverfis- og loftslagsmálum, að blómstra. 

Höldum áfram

Átaksverkefnið Höldum áfram kom út haustið 2021 þar sem Samtök atvinnulífsins tóku saman 21 áskorun og lausn í sex efnisflokkum sem snúa að opinberum rekstri, skattastefnu, rekstrarumhverfi atvinnulífsins, sjálfbærri þróun, vinnumarkaðnum, menntamálum og heilbrigðismálum sem viðbragð við heimsfaraldrinum. Áhersla var lögð á 2 áskoranir og lausnir tengdar sjálfbærri þróun en Ísland er í kjör aðstæðum til að skapa sjálfbært og blómstrandi efnahagslíf og getur orðið leiðandi á heimsvísu, en það eru mörg ljón í vegi.

Umhverfismánuður atvinnulífsins

Í tengslum við Umhverfisdag atvinnulífsins var allur októbermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og þá sér í lagi málefnum orkuskipta. Miklir hagsmunir felast orkuskiptum fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag; gjaldeyrissparnaður og efnahagsstöðugleiki, ódýrari samgöngur, minni mengun, bætt nýting og meiri hagkvæmni raforkukerfis. 

Fróðlegir umræðuþættir voru sýndir alla þriðjudaga og fimmtudaga í október þvert á atvinnugreinar sem sýndu viðfangsefni fyrirtækjanna og árangur þeirra. Þættina má finna hér.

Félagsmenn SA og aðildarsamtaka fengnir til þess að sýna frá því hvernig sjálfbærni er orðin ein af grunnstoðum í rekstri þeirra fyrirtækja. 

Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, Global Sustainability and EHS Manager hjá Össuri.

Össur þróar og framleiðir stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur sem bæta hreyfanleika fólks út um allan heim og stuðla þannig að bættum lífsgæðum. Þau leggja ríka áherslu á sjálfbærni í þeirra rekstri og styðja Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þau sýna það með því að vera kolefnishlutlaus árið 2021, vinna að stöðugum úrbótum í átt að hringrásarhagkerfi og jafnrétti kynjanna á þeirra starfsstöðum. 

Hér fyrir ofan er hluti af öflugu fimmtíu manna starfsfólki KAPP sem hefur sérhæft sig á undanförnum árum í að þróa tæknilausnir til að skipta út mjög óumhverfisvænum kælimiðlum eins og F-gös með GWP frá 2000-6000 yfir í umhverfisvænt CO2, ammóníak eða rafmagn með GWP undir 3. KAPP deildu með okkur hvernig þau geta aðstoðað matvælaiðnaðinn, sjávarútveginn og bílageirann í að skipta yfir í umhverfisvæna kæla og kælimiðla.
Snjólaug, Daði Baldur, Lára og Alexandra frá EFLU leyfðu fólki að skyggnast bakvið tjöldin í vinnunni og sjá þau verkefni sem unnið er að hjá EFLU. Þar er rík áhersla lögð á að veita ráðgjöf þar sem sjálfbærni, samfélagsleg ábyrgð og virðing fyrir samfélagi og umhverfi er höfð að leiðarljósi.
Sjálfbærni er eitt af grunnstoðum í rekstri BYKO þar sem umhverfislegir þættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir eru greindir og unnið að betrumbótum í gegnum allt skipurit fyrirtækisins. Vegferðin snýr að innleiðingu Heimsmarkmiðanna, fræðslu til starfsmanna og draga úr kolefnisspori fyrirtækisins með markvissum aðgerðum. Byko setur sér markmið, mæla árangur og greina niðurstöður árlega í gegnum sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins.

Umhverfisdagur atvinnulífsins

Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður sem var haldinn í sjöunda sinn þann 6. október 2021 í Hörpu. Að deginum stóðu Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Fróðleg og skemmtileg dagskrá fór fram en umfjöllun á deginum snerist um hinar ýmsu hliðar orkuskipta. Farið var yfir leiðina fram á við, hvernig unnt er að draga úr notkun eldsneytis til brennslu í vélum bíla og skipa, losun gróðurhúsalofttegunda frá byggingariðnaðinum og að lokum hvaða tækifæri og áskoranir liggja í fjármögnun orkuskipta frá sjónarhóli banka.

Ljóst er að fyrirtæki leggja sífellt meiri áherslu á umhverfismál og að hagræðing á ferlum fyrirtækja getur skilað sér í aukinni skilvirkni, dregið úr rekstrarkostnaði og ýtt undir heilbrigðan rekstur til frambúðar.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru veitt fyrirtækjum sem hafa skarað fram úr í umhverfismálum. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannessyni tilkynnti verðlaunin en umhverfisfyrirtæki ársins var Bláa lónið og framtak ársins á sviði umhverfismála var Aha.is. 

Margar tilnefningar bárust vegna Umhverfisverðlauna atvinnulífsins, bæði fyrir umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins, en ljóst er að atvinnulífið lætur sitt ekki eftir liggja í þessum efnum. Markmið stjórnvalda um kolefnishlutlaust Íslands fyrir 2040 verður nefnilega ekki náð nema með nánu samstarfi stjórnvalda og atvinnulífsins.

Gestir Umhverfisdagsins tóku virkan þátt í dagskránni.
Hildur Hauksdóttir hjá SFS, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi ræðir orkuskipti í sjávarútvegi.
Sigrún Melax, gæðastjóri Jáverk ehf, hélt erindi um vistvæna mannvirkjagerð.
Pallborðsumræða á Umhverfisdegi atvinnulífsins, Lovísa Árnadóttir upplýsingafulltrúi Samorku ræðir við þá Sigurð Friðleifsson, framkvæmdastjóra Orkuseturs og Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins.

Sjálfbærnidagur atvinnulífsins: Eru viðskiptatækifæri í kolefnishlutleysi?

Viðskiptavinir eru líklegri til að kaupa þjónustu af fyrirtækjum sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag. Þessari þróun mun aðeins vaxa ásmegin
– Edward Sims, sérfræðingur í sjálfbærni EY í Evrópu

Samtök atvinnulífsins og EY á Íslandi tóku höndum saman og settu á laggirnar árlegan Sjálfbærnidag atvinnulífsins þar sem fyrirtæki á Íslandi geta sótt sér nýjustu þekkingu sem nýtist þeim í rekstri út frá sjálfbærni og UFS viðmiðum. Dagurinn fór fram í fyrsta sinn þann 24. nóvember í Hörpu með veglegri dagskrá og vinnustofu þar sjónum var beint að kolefnishlutleysi.

Aðalfyrirlesari dagsins var Edward Sims sjálfbærnisérfræðingur EY í Evrópu en hann fór yfir ný viðskiptatækifæri með kolefnismörkuðum og hringrásarhagkerfi. Vinnustofu dagsins var stýrt af Edward Sims og Dr. Snjólaugu Ólafsdóttur, sérfræðingum í sjálfbærni hjá EY. Farið var yfir hvernig innleiðing á hringrásarhagkerfi getur dregið úr kolefnislosun og hagnýt dæmi frá leiðandi erlendum fyrirtækjum á þessu sviði (litlum sem stórum).

Ljóst er að mikil tækifæri felast í lágkolefnis- eða kolefnishlutlausu hagkerfi sem mun koma til með að skapa ný störf og þekkingu sem getur skapað tækifæri fyrir komandi kynslóðir. Miklir hagsmunir eru fólgnir í  útflutningi á íslenskri sérþekkingu til þess að endurræsa efnahagslífið eftir heimsfaraldurinn.

Betri heimur byrjar heima

Betri heimur byrjar heima er fundaröð sem fór af stað árið 2019 undir stjórn Péturs Reimars og hélt göngu sinni áfram árið 2021 í Húsi atvinnulífsins undir yfirskriftinni Sjálfbært atvinnulíf.

Á fundinum farið yfir hvernig lítil og meðalstór fyrirtæki geta tekið fyrstu skrefin í átt að sjálfbærni og þeim gefin tæki og tól sem þau geta nýtt sér á sinni vegferð.

Vilborg Einarsdóttir – stofnandi og framkvæmdastjóri vefkerfisins Bravo Earth, Kristín María Dýrfjörð – eigandi Te og Kaffi og Eva Magnúsdóttir - stofnandi, ráðgjafi og framkvæmdastjóri Podium ehf. voru með erindi á fundinum.

Samfélagsábyrgð

Samtök atvinnulífsins vinna að almennum og sameiginlegum hagsmunum aðildarfyrirtækja tengt sjálfbærni og samfélagsábyrgð. 

SA hvetja því aðildarfyrirtæki til að stuðla að aukinni sjálfbærni og hafa samfélagslega ábyrgð ávallt að leiðarljósi.

Smá skref eru stór skref

Áhugaverður fundur um sjálfbærni og hvernig fyrirtæki geta hafið eða eflt sína sjálfbærnivegferð var haldinn í höfuðstöðvum Íslandsbanka þann 26. ágúst.

Hugrún Elvarsdóttir, verkefnastjóri á Samkeppnishæfnisviði Samtaka atvinnulífsins fjallaði um hvernig fyrirtæki geta aukið jákvætt framlag sitt og minnkað neikvæð áhrif sinnar starfsemi.

Megininntak fyrirlestursins var að útvega fyrirtækjum gagnleg tól og tæki til að nota á sinni vegferð og að horfa á sjálfbærni sem tækifæri en ekki kvöð. Lausnirnar eru breytilegar eftir starfsemi, stærð og staðsetningu fyrirtækja og þurfa ekki alltaf að krefjast. 

Hugrún sýndi fram á margvíslegan ávinning sem gerir fyrirtæki í betur stakk búin til að bregðast við óvæntum aðstæðum, skerpir á samkeppnisforskoti og býr til virði til langs tíma.

Festa miðstöð um samfélagsábyrgð

Árið 2021 gerðust Samtök atvinnulífsins hluti af hópi 169 framsækinna fyrirtækja, leiðtoga og stofnana sem eru aðilar að Festu.

SA unnu í samstarfi við Festu o.fl. aðila að fundaröðinni Loftslags-Þrennunni sem Sjálfbærnidagur atvinnulífsins var hluti af. Fundaröðin miðaði að því að tryggja að fyrirtæki gætu verið með puttann á púlsinum í gegnum hnitmiðaða og praktíska upplýsingamiðlun tengda Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fór fram í Glasgow 1–12. nóvember.

Global Compact

Samtök atvinnulífsins eru tengiliður Íslands við UN Global Compact - sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Um er að ræða eitt öflugasta framtak í heiminum á sviði samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja. 

Árið 2015 settu 193 þjóðir Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Ísland, sér sameiginleg markmið – 17 heimsmarkmið um betri heim - sem í grunninn fela í sér að fyrir árið 2030 takist heimsbyggðinni að ná tökum á loftslagsbreytingum, auka jöfnuð og útrýma sárafátækt.

Sáttmálinn og heimsmarkmiðin vinna vel saman. Með því að innleiða 10 viðmið sáttmálans í rekstur fyrirtækja er lagður grunnur að ábyrgum rekstri fyrirtækja frá degi til dags, en stefnt er að því að heimsmarkmiðunum sé náð árið 2030.